Stefnuskrá Íslenskrar málnefndar 2020-2024

Íslensk málnefnd

Menntamálaráðherra skipar Íslenska málnefnd til fjögurra ára í senn. Hún starfar samkvæmt 6. grein laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í 6. grein segir meðal annars: „Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við með¬ferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi.“

Megináherslur í starfi nefndarinnar 2020–2024
Eitt af mikilvægustu verkefnum Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu og verði áfram nothæf og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.
12. mars 2009 samþykkti Alþingi íslenska málstefnu sem gefin var út í ritinu Íslenska til alls.1 Til stendur að endurskoða stefnuna á næsta ári. Þá var í júní 2019 samþykkt á alþingi Ályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi nr. 36/149 sem grundvallaðist að verulegu leyti á ábendingum Íslenskrar málnefndar og er mikilvægt viðmið fyrir starf málnefndarinnar.

Á skipunartíma starfandi Íslenskrar málnefndar 2020–2024 mun hún í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgjast með því að unnið verði markvisst að markmiðum málstefnunnar í samvinnu við menntamálaráðuneytið og sérstaklega í tengslum við átaksverkefnið „Áfram íslenska“. Einnig verður reynt að efla samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Íslensk málnefnd mun auk heldur hafa frumkvæði um verkefni og viðburði sem styrkt geta íslenska tungu á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Jafnframt er það markmið Íslenskrar málnefndar að verða sýnilegri í samfélaginu á þessu kjörtímabili, meðal annars á samfélagsmiðlum.

Mörg verkefni bíða úrlausnar og verður tekist á við þau eftir því sem aðstæður leyfa en hér verða nefnd fjögur verkefni sem Íslensk málnefnd hyggst einkum beita sér fyrir á skipunartímanum:

1. Viðhorf til íslensku: Reiknað er með að ályktun um stöðu íslenskrar tungu árið 2020 snúist um þetta mál. Í bókinni Íslenska í grunnskólum og framhaldsskólum sem byggir á rannsókninni „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“ (2013–2016) kemur fram að skólakerfið glímir við neikvætt viðhorf til tungumálsins og hið sama hefur komið fram í öðrum nýlegum rannsóknum. Sama á við um netið og afþreyingariðnaðinn en þar eru erlendar streymisveitur og tölvuleikir nú orðnir áberandi og eins er áberandi hve fólk nefnir til bækur á ensku sem áhugaverðan lestur fremur en íslenskar bókmenntir. Fjölmenningarsamfélagið skapar líka þrýsting og gætt hefur þess viðhorfs að erlendri menningu sé mest virðing sýnd með því að nota ensku fremur en íslensku í samskiptum. Áberandi var virðingarleysi viðskiptalífsins í upphafi 21. aldar en þar hafa viðhorf þó aðeins batnað ef marka má samráðsfundi Íslenskrar málnefndar með aðilum úr því. Mikilvægt er því að fá þjóðina til að efla með sér raunsætt mat á stöðu íslensku sem er ekki ríkjandi mál í heiminum eða Evrópu heldur þvert á móti fámennismál sem er í talsverðri hættu og er því fjarri því að vera „hinn sterki aðili“ í samfélagi tungumálanna.

2. Íslenska í skólakerfinu: Þetta yrði höfuðatriði ályktunar um stöðu íslenskar tungu árið 2021 og hefur áður verið eitt helsta baráttumál Íslenskrar málnefndar. Eitt af því sem þarf að efla er tjáningarkennsla í skólakerfinu og þá í senn munnleg og skrifleg tjáning. Nefndin hefur áður lýst miklum áhyggjum af stöðu ritþjálfunar í skólakerfinu og lýst þeirri skoðun að ritþjálfun þurfi að komast inn í stundaskrár bæði á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Jafnframt hefur minnkandi bóklestur talsverð áhrif á bæði læsi og ritun. Huga þarf að stöðu almennings- og skólabókasafna sem mörg hver standa höllum fæti. Söfnin gegna lykilhlutverki í eflingu læsis og afdrifaríkt gæti reynst að vanrækja þau. Íslensk málnefnd mun hvetja sveitarfélög til að styrkja söfnin um allt land. Talað mál og hlustun þarf að enn fremur fá meira vægi í námi á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Það er t.d. gott að hlusta á upplestur á vönduðum textum til að efla orðaforða og málvitund. Þá þarf að leggja þarf aukna áherslu á að þjálfa leikni í samræðum og rökræðum, að koma fyrir sig orði og gera grein fyrir máli sínu.

3. Netið: Þetta yrði höfuðatriði ályktunar um stöðu íslenskar tungu árið 2022. Þó að nú hafi verið sett myndarlegt fjármagn í máltækniáætlun sem mun leika lykilhlutverk í að búa til lausnir til að auðvelda íslenskum neytendum að nota íslensku í tölvu- og netumhverfi er ekki björninn unninn þar með. Mikilvægt er líka að málnotendur kjósi að nota íslensku einnig í tölvu- og netheimum og eins þarf að vera gott aðgengi að orðabókum og almennum upplýsingum um tungumálið á netinu og í snjallsímum. Orðabækur, gamlar og nýjar, nýyrðasöfn, orðtakasöfn, og hugtakasöfn ætti að vera unnt að nálgast gjaldfrjálst rafrænt á einum stað. Sömuleiðis handbækur um málfar og stafsetningu. Um leið þarf að tryggja að íslenskt viðmót sé í tölvum en þar stendur íslenska höllum fæti miðað við stærri tungumál þar sem frekar eru markaðsaðstæður til að íslenska allt viðmót. Íslensk málnefnd mun beita sér fyrir því að skólar og almenningur noti íslenskan hugbúnað í tölvum sínum og skólar noti rafrænt námsefni á íslensku eins og auðið er. Hún mun einnig hvetja seljendur tölva, snjallsíma og annarra tækja ætluðum almenningi til að bjóða íslenskan hugbúnað.

4. Fjölmenningarsamfélagið: Þetta yrði höfuðatriði ályktunar um stöðu íslenskar tungu árið 2023. Skólakerfið stendur frammi fyrir miklum áskorunum þar sem svo mikill fjöldi barna með annað móðurmál en íslensku yrði við nám í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins næstu árin og áratugina. Skólakerfið er eitt öflugasta tækið sem við höfum til að styrkja og efla íslensku, hvort sem íslenska er fyrsta eða annað mál nemendanna. Þar eigum við að nýta reynslu annarra þjóða og niðurstöður fjölmargra erlendra rannsókna á aðlögun innflytjenda og námsárangri og námsfærni tvítyngdra barna. Hafa ber í huga að virkt tvítyngi felur í sér málviðbót, þ.e. að seinna málinu er bætt við móðurmálið en það verða ekki málskipti — nýja málið kemur ekki í stað móðurmálsins. Í ályktuninni var vakin athygli á að rannsóknir bendi til að málviðbót eða virkt tvítyngi styrki og hafi jákvæð áhrif á námsárangur en málskipti hafi neikvæð áhrif. Ekki er síður nauðsynlegt að auka námsframboð fyrir fullorðna innflytjendur og gæta þess að búseta eða kostnaður hamli ekki námi. Það er afar varasamt að hópur Íslendinga sé útilokaður frá íslenskri menningu vegna tungumálaörðugleika. Íslensk málnefnd mun stefna að umræðum um íslensku sem annað mál, jafnt barna sem fullorðinna, á starfstímanum. Mikil aukning ferðamanna getur haft og hefur reyndar nú þegar talsverð áhrif á íslensku sem tungumál landsins. Nú þegar er staðan þannig að erlend mál í miðbæ Reykjavíkur eru ríkjandi í auglýsingum verslana og matsölustaða. Mikilvægt er að verslun og þjónusta sé ekki eingöngu á erlendum tungum heldur sé íslenska sýnileg, t.d. á matseðlum og í verslunum sem einkum þjóna ferðamönnum, ásamt þeim erlendu málum sem viðeigandi þykir að nota. Einnig er nauðsynlegt að leiðbeiningar á vegum úti og á ferðamannastöðum séu bæði á íslensku og viðeigandi erlendum málum. Það verður eitt af viðfangsefnum Íslenskrar málnefndar að beina því til þeirra sem málið varðar að ráða hér bót á.

Íslensk málnefnd er sammála um að leggja höfuðáherslu á þessi fjögur atriði næstu fjögur árin. Verður m.a. efnt til málþinga um hvert og eitt og reynt að vekja athygli á mikilvægi þess að efla stöðu íslenskrar tungu.

Hópur á vegum Íslenskrar málnefndar vann að endurskoðun á íslenskum stafsetningarreglum og greinarmerkjareglum sem lokið var á kjörtímabilinu 2015–2019 og þarf að kynna þessar reglur rækilega á þessu kjörtímabili.

 

1 Íslensku til alls má nálgast á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis (www.menntamalaraduneyti.is) og á slóðinni www.íslenskan.is.

Fleiri færslur