Stefnuskrá Íslenskrar málnefndar 2011–2015

Íslensk málnefnd

Menntamálaráðherra skipar Íslenska málnefnd til fjögurra ára í senn í samræmi við ákvæði 9. gr. laga nr. 40/2006 um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í 9. grein segir meðal annars: „Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráð­gjöf um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur til menntamálaráðherra um mál­stefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frum­kvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við með­ferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi.“

Megináhersla í starfi nefndarinnar 2011–2015
Eitt af mikilvægustu verkefnum Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu og verði áfram not­hæf og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

Á liðnu starfstímabili samþykkti Alþingi, 12. mars 2009,  íslenska málstefnu sem gefin var út í ritinu Íslenska til alls[1]. Á skipunartíma starfandi Íslenskrar málnefndar 2011–2015 mun hún í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgjast með því að unnið verði markvisst að markmiðum málstefnunnar og hafa frumkvæði um verkefni og viðburði sem styrkt geta íslenska tungu á sem flestum sviðum þjóðlífsinsÍ því skyni hyggst hún koma á laggirnar vinnuhópum á völdum sviðum, til dæmis vinnuhópum um skólamál á öllum skólastigum frá leikskóla til háskóla og vinnuhóp um fjölmiðla.

Hér verða nefnd þau verkefni sem Íslensk málnefnd hyggst einkum beita sér fyrir. Mörg fleiri verkefni, sem nefnd eru í Íslensku til alls, bíða úrlausnar og verður tekist á við þau eftir því sem aðstæður leyfa.

Íslenskukennsla á öllum skólastigum og menntun kennaraefna.  Áhersla var lögð á íslenskukennslu á öllum skólastigum og menntun kennara í stefnuskrá Íslenskrar málnefndar fyrir árin 2006–2010. Eins og fram kemur í Íslensku til alls er minni tíma varið til íslenskukennslu í grunnskólum hérlendis en í nágrannalöndunum. Íslensk málnefnd telur það eitt af brýnustu verkefnum sínum að beita sér fyrir því að hvergi verði gefið eftir í kennslu íslensku sem móður­máls í skólum, allt frá leikskóla til framhaldsskóla, og fylgjast grannt með námskrárvinnu og gerð viðmiðunarstundarskrár handa grunnskólum. Hér gegna kennarar á öllum skóla­stigum lykilhlutverki. Menntun þeirra þarf að vera í samræmi við áherslur og kröfur skólanna. Mikilvægt er því að auka verulega móðurmálsþáttinn í kennara­námi. Í leikskólum eru börn á máltökualdri og leikskólakennarar þurfa að vera færir um að örva málþroska á markvissan hátt og vera góðar málfyrirmyndir. Einnig þurfa leikskólakennarar að geta lagt grunn að lestrarkennslu. Grunn­skóla­kennarar þurfa að hafa víð­tæka þekkingu á íslensku máli og bókmenntum, töluðu máli og rituðu. Ítarlegt nám í máli og bókmenntum, ritun og lestrarkennslu ætti að vera sjálfsagður þáttur í kennaranámi. Með því móti verða kennaraefni búin undir kennslu á öllum stigum grunnskólans og tryggt verður að allir kennarar öðlist færni í að beita máli í samskiptum við foreldra og nem­end­ur. Í framhaldsskóla er sérhæfing meiri en á leikskóla- og grunnskólastigi en íslenskt mál er engu að síður afar mikilvægt. Úr framhaldsskólum fer mikill hluti nemenda í háskóla hérlendis og verður að vera unnt að krefjast þess að þeir geti tjáð sig í ræðu og riti á íslensku.

Íslenska í háskólum. Mikilvægt er að umræða fari fram um stöðu íslenskrar tungu á háskólastigi. Málnefndin hyggst beita sér fyrir því að slík umræða fari af stað, t.d. með málþingum, og fylgja henni síðan eftir. Í Íslensku til alls er talið mikilvægt að allir háskólarnir setji sér málstefnu og nú hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið óskað eftir því að svo verði gert. Íslensk málnefnd mun fylgjast með að sú ósk verði að veruleika og efna til málþings og umræðna um málstefnu á háskólastigi.

Óraunhæft er að gera kröfur um að einungis sé kennt á íslensku við háskóla í landinu þar sem skólarnir þurfa að standa við erlendar skuldbindingar. Málnefndin mun beita sér fyrir því að kennsla á erlendu máli verði ekki á kostnað íslensku heldur verði íslenska notuð í meiri hluta þeirra námskeiða sem skólarnir bjóða nemendum sínum. Ef nota þarf erlent tungumál í námskeiði þá er nauðsynlegt að kennari hafi gott vald á hinu erlenda máli og að nemendur öðlist þekkingu á íslenskum fræðihugtökum námsefnisins í orðalistum eða á annan hátt þannig að þeir verði færir um að tjá sig á íslensku um fræði sín. Málnefndin mun eftir megni fylgjast með notkun erlendra tungumála í kennslu annarri en tungumálakennslu

Eins og fram kom í stefnuskrá Íslenskrar málnefndar fyrir árin 2006–2010 og í Íslensku til alls eru í heimi fræða og vísinda þau skrif mest metin sem birtast í alþjóðlegum, ritrýnd­um fræðitímaritum og þar fást ekki birtar fræðigreinar á íslensku. Íslenskir fræðimenn eru því undir miklum þrýstingi að fjalla um rannsóknir sínar á erlendum málum, eink­um ensku. Staða íslenskrar tungu í heimi fræða og vísinda er því ekki nógu sterk. Á Íslandi eru þó gefin út á íslensku rit­rýnd fræðitímarit sem gera miklar kröfur um vísindaleg gæði og nýnæmi. Nefna má að öll virtustu tímarit í íslenskum fræðum eru íslensk og að langmestu leyti rituð á íslensku. Þessi tímarit hafa alþjóðlega útbreiðslu, enda eru íslensk fræði stunduð víða um heim. Birting fræðigreina í þessum tímaritum er engu að síður minna metin en birt­ing í alþjóðlegum erlendum tímaritum. Íslensk málnefnd hyggst beita sér fyrir því að staða íslenskrar tungu í fræðasamfélaginu verði treyst og íslensk ritrýnd fræði­tíma­rit verði viðurkennd til jafns við alþjóðleg ritrýnd tímarit.

Aukinn lestur barna. Íslensk málnefnd hyggst hvetja til aukins bóklestrar og ýta undir bókmenntasköpun, einkum hjá börnum og unglingum. Það má gera til að mynda með bókmenntaþingi og ljóðasamkeppni í grunn­skólum. Einnig hyggst hún beita sér fyrir aukinni fræðslu um mikilvægi þess að lesið sé fyrir börn á forskólaaldri t.d. með gerð bæklings sem verðandi foreldrar og foreldrar ungra barna geta kynnt sér. Málnefndin mun beita sér fyrir aukinni samvinnu þeirra sem láta og geta látið sig fræðslu barna og unglinga um íslenskt mál varða, t.d. mennta- og menningarmálaráðuneyti, menntavísindasvið Háskóla Íslands og Samtök móðurmálskennara svo einhverjir séu nefndir.

 Endurskoðun auglýsinga um stafsetningu og greinarmerkjasetningu. Eitt af lögbundnum verkefnum Íslenskrar málnefndar er að semja íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og menntamálaráðherra gefur út. Í gildi eru auglýsingar menntamálaráðuneytisins nr. 132/1974 um ís­lenska staf­setningu og auglýsingar nr. 133/1974um grein­ar­merkja­setn­ingu. Tíma­bært þótti að taka þessar auglýsingar til endurskoðunar, ekki síst með til­liti til fram­setningar, og beitti Íslensk mál­nefnd sér fyrir því á liðnu starfstímabili að starfshópur var settur á laggirnar. Hann skilaði af sér í október 2010 tillögum um nokkur atriði en talsvert verk er þó óunnið og verður endurskoðun haldið áfram þar sem frá var horfið.   

Athygli vakin á því sem vel er gert. Íslensk málnefnd mun á skipunartímanum halda áfram að vekja athygli á vandaðri og snjallri mál­notkun þegar tilefni gefast.


[1] Íslensku til alls má nálgast á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis (www.menntamalaraduneyti.is) og á slóðinni www.íslenskan.is.

Fleiri færslur