Stefnuskrá Íslenskrar málnefndar 2015–2019
2. Ritun, ritþjálfun og bókmenntamálið.Í ályktun um stöðu íslenskrar tungu (sjá www.íslenskan.is), sem Íslensk málnefnd kynnti á degi íslenskrar tungu 2015, var lögð áhersla á aukna ritþjálfun í skólakerfinu. Ritþjálfun þarf að komast inn í stundaskrár bæði á unglingastigi grunnskóla og í framhaldsskólum. Líta þarf á ritþjálfun og ritunarkennslu sem sérstaka kennslugrein, til viðbótar við það nám sem þegar fer fram í íslensku í málfræði og bókmenntum. Íslensk málnefnd telur þetta mikilvægt fyrir allt frekara nám og störf í þjóðfélaginu og til að viðhalda sambandi þjóðarinnar við íslensku sem ritmál. Það er nú þegar í hættu. Reynt verður að vekja athygli á þessu.
Málnefndin telur að sérstaklega þurfi að styrkja bókmenntir ætlaðar ungu fólki. Fáar unglinga- og ungmennabækur hafa komið út ár hvert og hætt er við að framboð á bókmenntum fyrir þennan aldurshóp sé að verða fábrotið og einhæft. Þegar ber á því að lesefni á ensku sé ráðandi hjá ungmennum sem lesa mikið. Slíkum áhuga ber að fagna en um leið að gæta þess að íslensk ungmenni missi þá ekki um leið sambandið við íslenskt bókmenntamál þannig að t.d. Íslendingasögurnar og íslenskar skáldsögur frá fyrri hluta 20. aldar verði þeim framandi.
Mikilvægt er einnig að kanna stöðu skólabókasafna sem mörg hver standa höllum fæti. Söfnin gegna lykilhlutverki í eflingu læsis og afdrifaríkt gæti reynst að vanrækja þau. Íslensk málnefnd mun hvetja sveitarfélög til að styrkja söfnin um allt land.
3. Áhrif fjölmenningarsamfélagsins á málið og viðbrögð við auknum ferðamannastraumi. Í ályktun Íslenskrar málnefndar 2013 (sjá www.íslenskan.is) var sjónum beint að íslensku sem öðru máli. Bent var á að skólakerfið stæði allt frammi fyrir miklum áskorunum þar sem svo mikill fjöldi barna með annað móðurmál en íslensku yrði við nám í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins næstu árin og áratugina. Málræktarþing var haldið það ár um íslensku sem annað mál og kom fram að margt er vel gert þegar tekið er á móti börnum af erlendum uppruna. En betur má gera og fullyrða má að fjárveitingar til íslenskukennslu barna með annað mál en íslensku séu fjarri því að vera nógu miklar. Skólakerfið er eitt öflugasta tækið sem við höfum til að styrkja og efla íslensku, hvort sem íslenska er fyrsta eða annað mál nemendanna. Þar eigum við að nýta reynslu annarra þjóða og niðurstöður fjölmargra erlendra rannsókna á aðlögun innflytjenda og námsárangri og námsfærni tvítyngdra barna. Hafa ber í huga að virkt tvítyngi felur í sér málviðbót, þ.e. að seinna málinu er bætt við móðurmálið en það verða ekki málskipti — nýja málið kemur ekki í stað móðurmálsins. Í ályktuninni var vakin athygli á að rannsóknir bendi til að málviðbót eða virkt tvítyngi styrki og hafi jákvæð áhrif á námsárangur en málskipti hafi neikvæð áhrif.
Ekki er síður nauðsynlegt að auka námsframboð fyrir fullorðna innflytjendur og gæta þess að búseta eða kostnaður hamli ekki námi. Það er afar varasamt að hópur Íslendinga sé útilokaður frá íslenskri menningu vegna tungumálaörðugleika. Íslensk málnefnd mun stefna að umræðum um íslensku sem annað mál, jafnt barna sem fullorðinna, á starfstímanum.
Mikil aukning ferðamanna getur haft og hefur reyndar nú þegar talsverð áhrif á íslensku sem tungumál landsins. Nú þegar er staðan þannig að erlend mál í miðbæ Reykjavíkur eru ríkjandi í auglýsingum verslana og matsölustaða. Mikilvægt er að verslun og þjónusta sé ekki eingöngu á erlendum tungum heldur sé íslenska sýnileg, t.d. á matseðlum og í verslunum sem einkum þjóna ferðamönnum, ásamt þeim erlendu málum sem viðeigandi þykir að nota. Einnig er nauðsynlegt að leiðbeiningar á vegum úti og á ferðamannastöðum séu bæði á íslensku og viðeigandi erlendum málum. Það verður eitt af viðfangsefnum Íslenskrar málnefndar að beina því til þeirra sem málið varðar að ráða hér bót á.
4. Safna upplýsingum um íslensku og málfar á einn stað. Málnefndin mun í samvinnu við aðra beita sér fyrir því að upplýsingum um tungumálið verði komið fyrir rafrænt á einn stað notendum að kostnaðarlausu. Þar má hafa að fyrirmynd t.d. danska vefinn www.sproget.dk sem veitir svör við flestu sem varðar danska tungu og er hann mikið notaður. Í íslenska vefnum þyrftu að vera leiðbeiningar um málnotkun, stafsetningar- og greinamerkjareglur og annað sem málnotendur þurfa helst á að halda.
Íslensk málnefnd er sammála um að leggja höfuðáherslu á þessi fjögur atriði næstu fjögur árin. Verður m.a. efnt til málþinga um hvert og eitt og reynt að vekja athygli á mikilvægi þess að efla stöðu íslenskrar tungu.
Undanfarið ár hefur hópur á vegum Íslenskrar málnefndar unnið að endurskoðun á íslenskum stafsetningarreglum. Málnefndin skilaði tillögum hópsins til mennta- og menningarmálaráðherra í ágústlok og mun nú hvetja ráðherrann til þess að auglýsa reglurnar. Auglýsingin kæmi í stað auglýsinga frá 1974 og 1977.
[1] Íslensku til alls má nálgast á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis (www.menntamalaraduneyti.is) og á slóðinni www.íslenskan.is.