Stefnuskrá 2006–2010

Íslensk málnefnd

Stefnuskrá Íslenskrar málnefndar 2006–2010

 

Menntamálaráðherra skipar Íslenska málnefnd til fjögurra ára í senn í samræmi við ákvæði 9. gr. laga nr. 40/2006 um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í 9. grein segir meðal annars: „Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráð­gjöf um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur til menntamálaráðherra um mál­stefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frum­kvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við með­ferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi.“

Megináhersla í starfi nefndarinnar
Á tímum hraðvaxandi alþjóðasamskipta þar sem notkun erlendra tungumála, einkum ensku, verður æ ríkari þáttur í íslensku samfélagi er brýnt að tryggja stöðu íslenskrar tungu. Eitt af mikilvægustu verkefnum Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu í þessu breytta umhverfi og verði áfram not­hæf og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Þau verkefni sem lýst er hér að neðan bera vott þessari megináherslu í starfi nefndarinnar.

Verkefni á starfstímabilinu 2006–2010
Stærsta einstaka verkefni Íslenskrar málnefndar á skipunartímanum er mótun íslenskr­ar málstefnu í samræmi við lögbundið hlutverk nefndarinnar. Skipaðir verða vinnu­hópar um einstaka þætti þeirrar vinnu og er stefnt að því að drög að íslenskri mál­stefnu liggi fyrir í árslok 2008. Birt verður ályktun um stöðu íslenskrar tungu árlega á degi íslenskrar tungu. Auk þess hyggst nefnd­in starfa að eftirtöldum verkefnum:

(1) Íslenska verði lögfest sem opinbert tungumál á Íslandi. Íslensk málnefnd telur brýnt að réttarstaða íslenskrar tungu í íslensku samfélagi verði tryggð í stjórnarskrá. Íslenska er í reynd opinbert mál í íslensku samfélagi án þess að kveð­ið sé skýrt á um það í lögum. Tungunni hefur ekki stafað umtalsverð hætta af veikri lagalegri stöðu hingað til en aðstæður geta breyst hratt. Í ljósi hratt vaxandi alþjóða­samskipta og aukinnar notkunar erlendra tungumála á Íslandi telur Íslensk mál­nefnd nauðsynlegt að íslenska verði lögfest sem opinbert tungumál á Íslandi (jafn­framt íslensku táknmáli, sbr. næsta lið).
Lögð var fram þingsályktunartillaga á Alþingi árið 2003 (130. löggjafarþing 2003–2004, þskj. 517, 387. mál; flutningsmenn Mörður Árnason o.fl.) um að forsætis­ráðherra yrði falið að setja á fót nefnd sem athugi réttarstöðu íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbers máls á Íslandi. Alþingi vísaði þessari tillögu til ríkisstjórnar vorið 2004 en ríkisstjórn hefur ekki enn tekið neina ákvörðun um meðferð málsins (133. löggjafarþing 2006–2007, þskj. 276, 267. mál: fyrirspurn til menntamála­ráðherra um réttarstöðu íslenskrar tungu og stöðu annarra tungumála í löggjöf og stjórn­kerfi). Íslensk málnefnd styður áðurnefnda þingsályktunartillögu og mun óska eftir því formlega við ráðamenn að sett verði á fót nefnd til að vinna að framgangi þessa máls.

(2) Réttarstaða íslenska táknmálsins verði tryggð í lögum. Íslensk málnefnd telur brýnt að réttarstaða íslenska táknmálsins verði tryggð og það verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra, jafn­rétt­hátt íslensku. Lagt hefur verið fyrir Alþingi frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra (133. löggjafarþing 2006–2007, þskj. 938, 630. mál; flutningsmenn Sigurlín Margrét Sigurðardóttir og fleiri; áður lagt fram á bæði 130. og 131. lög­gjafar­þingi.) Íslensk málnefnd styður bar­áttu heyrnarlausra fyrir framgangi þessa máls.

(3) Um íslensku sem móðurmál Íslensk málnefnd telur mikilvægt að hvergi verði gefið eftir í kennslu íslensku sem móður­máls í skólum, allt frá leikskóla í framhaldsskóla. Hér gegna kennarar á öllum skóla­stigum lykilhlutverki. Menntun þeirra þarf að vera í samræmi við áherslur og kröfur skólanna. Mikilvægt er því að standa vörð um móðurmálsþáttinn í kennara­náminu. Í leikskólum eru börn á máltökualdri og leikskólakennarar þurfa að vera færir um að örva málþroska á markvissan hátt og vera góðar málfyrirmyndir. Efla þarf kennslu í íslensku í grunnskóla og færa til sam­ræmis við það sem er í nágranna­lönd­um þar sem hlutdeild móðurmálsins er stærri en í íslenskum grunnskólum. Grunn­skóla­kennarar þurfa að hafa víð­tæka þekkingu á íslensku máli, rituðu og mæltu. Slík þekking ætti að vera sjálfsagður þáttur í kennaranámi svo að tryggt sé að kennarar öðlist færni í að beita máli í samskiptum við foreldra og nem­end­ur. Í framhaldsskóla er sérhæfing meiri en á leikskóla- og grunnskólastigi en íslenskt mál er engu að síður afar mikilvægt. Einnig er brýnt að háskólanemar séu færir um að tjá sig í ræðu og riti á íslensku. Íslensk málnefnd hyggst beita sér fyrir eflingu íslenskukennslu á öllum skólastigum og fylgjast grannt með námskrárvinnu.

(4) Íslenskukennsla fyrir útlendinga verði efld. Fólki af erlendum uppruna hefur fjölgað mjög á Íslandi undanfarin ár. Mikilvægt er að því standi til boða vönduð íslenskukennsla. Sú kennsla þarf að vera að­gengi­leg og ódýr ellegar ókeypis og eftirsóknarverð fyrir útlendinga hér á landi. Æskilegt er að vinnuveitendur bjóði erlendum starfsmönnum sínum að stunda nám í íslensku í vinnu­tíma. Jafnframt er nauðsynlegt að efla kennaramenntun þannig að tryggt sé að jafnan sé kostur á hæfum kennurum sem hlotið hafa sérmenntun til að kenna íslensku sem annað mál.

(5) Íslensk tungutækni. Upplýsingatækni verður æ mikilvægari þáttur í daglegu lífi Íslendinga og er afar brýnt að þeir geti notað móðurmálið á þeim vettvangi. Til að mynda er áríð­andi að ýmiss konar grundvallarhugbúnaður (til dæmis stýrikerfi, ritvinnsluforrit, póst­forrit og vafrar) verði fáan­legur með íslensku notendaviðmóti og að í algengum rit­vinnslu­for­ritum verði hjálparbúnaður fyrir íslensku, svo sem forrit sem leiðrétta stafsetningu, málfar og skipta orðum rétt á milli lína. Þá hafa einnig orðið örar framfarir í vél­ræn­um þýðingum á undanförnum árum og er því nauðsynlegt að íslenska verði hluti af þeirri þróun. Til þess að staða íslenskrar tungu í upplýsinga­tækni sé tryggð þarf að eiga sér stað kröftugt rannsóknar-, þróunar- og uppbyggingar­starf í íslenskri tungutækni. Íslensk málnefnd hyggst styðja það starf eins og kostur er.

(6) Málfarsráðgjöf efld og stofnað til símenntunarnámskeiða. Þær stéttir sem vinna mest með íslenskt mál á opinberum vettvangi, einkum fjölmiðla­fólk og auglýsingasmiðir, þurfa að eiga kost á vandaðri málfarsráðgjöf og símenntun um íslenskt mál og málnotkun. Hið sama gildir um kennara á öllum skólastigum en ábyrgð þeirra er mikil í máluppeldi barna. Íslensk málnefnd hyggst beita sér fyrir samstarfi við­eig­andi stéttarfélaga og háskólastofnana á sviði íslenskra fræða um endurmenntunar­námskeið. Enn fremur mun nefndin kanna möguleika á að verðlauna þá fjölmiðla­menn og auglýsingasmiði sem þykja skara fram úr í meðferð íslensks máls. Markmiðið er að koma af stað hugarfarsbreytingu þannig að fjölmiðlamenn og auglýsinga­smiðir beri sjálfir ábyrgð á meðferð íslensks máls en velti ábyrgðinni ekki yfir á málfarsráðunauta eða prófarka­les­ara. Færni fjölmiðlamanna í meðferð íslensks máls er ekki síst mikilvæg á vefmiðlum þar sem fréttir eru iðulega unnar hratt og ráð­rúm til yfirlestrar lítið.

(7) Staða íslenskrar tungu í fræðasamfélaginu treyst. Í heimi fræða og vísinda eru þau skrif mest metin sem birtast í alþjóðlegum, ritrýnd­um fræðitímaritum og þar fást ekki birtar fræðigreinar á íslensku. Íslenskir fræðimenn eru því undir miklum þrýstingi að fjalla um rannsóknir sínar á erlendum málum, eink­um ensku. Staða íslenskrar tungu í heimi fræða og vísinda er því ekki nógu sterk. Á Íslandi eru þó gefin út á íslensku rit­rýnd fræðitímarit sem gera miklar kröfur um vísindaleg gæði og nýnæmi. Nefna má að öll virtustu tímarit í íslenskum fræðum eru íslensk og að langmestu leyti rituð á íslensku. Þessi tímarit hafa alþjóðlega útbreiðslu, enda eru íslensk fræði stunduð víða um heim. Birting fræðigreina í þessum tímaritum er engu að síður minna metin en birt­ing í alþjóðlegum erlendum tímaritum. Íslensk málnefnd hyggst beita sér fyrir því að staða íslenskrar tungu í fræðasamfélaginu verði treyst og íslensk ritrýnd fræði­tíma­rit verði viðurkennd til jafns við alþjóðleg ritrýnd tímarit.

(8) Nýyrðasmíð efld. Virkja þarf sköpunarmátt tungumálsins með öflugri nýyrðasmíð. Íslensk málnefnd hyggst beita sér fyrir því að hlúð verði að orðanefndastarfi, meðal annars með nám­skeið­um í orðasmíð. Hvetja þarf grunnskóla­nemendur og ungt fólk til þátttöku í ný­yrða­smíð með verðlaunasamkeppn

i. (9) Hvatt til aukins bóklestrar og bókmenntasköpunar. Hvetja þarf til aukins bóklestrar og ýta undir bókmenntasköpun, einkum hjá börnum og unglingum. Það má gera til að mynda með bókmenntaþingi og ljóðasamkeppni í grunn­skólum.

(10) Staða íslensku við hlið ensku verði tryggð. Enska á víða rétt á sér í íslensku samfélagi, til að mynda í efni sem ætlað er erlendum ferðamönnum jafnt sem Íslendingum. Brýnt er að enskan ryðji þar ekki íslenskunni á brott. Ekki getur, svo dæmi sé tekið, talist eðlilegt að hátíðir eða samkomur haldnar hér á landi beri einungis ensk heiti, enda þótt þær séu öðrum þræði ætlaðar erlendum ferðamönnum. Íslensk málnefnd hyggst beita sér fyrir því að íslenska missi ekki sinn sess við hlið ensku í slíkum tilvikum.

(11) Athygli vakin á því sem vel er gert. Íslensk málnefnd mun á skipunartímanum vekja athygli á vandaðri og snjallri mál­notkun þegar tilefni gefast.

(12) Endurskoðun auglýsinga um stafsetningu og greinarmerkjasetningu. Í gildi eru auglýsingar menntamálaráðuneytisins nr. 132/1974 og 261/1977 um ís­lenska staf­setningu og auglýsingar nr. 133/1974 og 184/1974 um grein­ar­merkja­setn­ingu. Tíma­bært er að taka þessar auglýsingar til endurskoðunar, ekki síst með til­liti til fram­setningar, og mun Íslensk mál­nefnd beita sér fyrir því.

Nýjustu færslur