Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls (61/2011)

Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls tóku gildi 7. júní 2011. Hér er tengill á lögin.

Í 6. grein laganna er fjallað um Íslenska málnefnd:

„Íslensk málnefnd.

Ráðherra skipar Íslenska málnefnd og er skipunartími nefndarinnar fjögur ár. Í Íslenskri málnefnd eiga sæti 16 menn. Auk þess er nefndinni heimilt að bjóða mönnum, einum eða tveimur, setu í nefndinni ef hún telur það nefndarstarfinu til gagns. Hver eftirtalinna tilnefnir einn mann í málnefndina: Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Íðorðafélagið fyrir hönd orðanefnda, Bandalag þýðenda og túlka, Staðlaráð Íslands, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Hagþenkir og Samband íslenskra sveitarfélaga. Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir tvo menn í málnefndina. Ráðherra skipar tvo nefndarmenn án tilnefningar og skal annar vera formaður og hinn varaformaður. Velferðarráðherra tilnefnir þar að auki einn fulltrúa úr röðum innflytjenda. Íslensk málnefnd skiptir með sér verkum.

Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra.
Skrifstofa Íslenskrar málnefndar er í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ráðherra setur reglugerð um nánari starfsemi Íslenskrar málnefndar.“

Áður hafði verið fjallað um hlutverk Íslenskrar málnefndar í 9. gr. laga nr. 40/2006, um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Við gildistöku þessara nýju laga fellur það ákvæði brott.

 

Fleiri færslur