„Komið hafa fram ábendingar og gagnrýni á opinberum vettvangi, meðal annars frá stjórn Íslenskrar málnefndar 2016 og 2017, um notkun tungumála á upplýsinga- og leiðbeiningaskiltum í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Stjórn Isavia tók þessi mál til umræðu árið 2018. Á síðustu dögum hafa ábendingar og gagnrýni um þessi efni sprottið upp á ný.
Að gefnu þessu tilefni er stjórn Isavia ohf. sammála um eftirfarandi:
Nú standa yfir miklar breytingar og uppbygging á Keflavíkurflugvelli. Samhliða þeim verkefnum hefur stjórn Isavia ohf. ákveðið að gerð verði áætlun um endurnýjun merkingakerfis flugstöðvarinnar í áföngum á komandi misserum. Við þá endurnýjun verði þeirrar reglu gætt að íslenska verði framvegis í forgrunni tungumála á leiðbeiningar- og upplýsingaskiltum flugstöðvarinnar.“