Ábendingar og umsagnir Íslenskrar málnefndar
2020
Íslenskri málnefnd barst skeyti þar sem bent var á að Orkuveita Reykjavíkur, sem er félag í opinberri eigu, haldi úti dótturfélagi með heitinu Carbfix. Í því sambandi var bent á skyldur stjórnvalda samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd beinir því til Orkuveitunnar að íhuga hvort ekki sé rétt að gefa þessu dótturfyrirtæki íslenskt nafn. Svar barst frá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem fram kom að félagið bæri nafnið Carbfix í ljósi þess að félagið starfar á alþjóðlegum markaði og að Carbfix er þegar orðið þekkt vörumerki á alþjóðavísu.
Íslensk málnefnd semdi bréf til Embættis landlæknis og til almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra 29. júní 2020 vegna nýlegra skilta í Leifsstöð frá þeim þar sem notað er orðið „barkóði“ en ekki „strikamerki“. Af því tilefni áréttar Íslensk málnefnd þá skyldu opinberra aðila að hafa öll skilti á vandaðri og viðurkenndri íslensku. Svar barst degi síðar frá Embætti landlæknis og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra þar sem fram kom að skiltin yrðu lagfærð.
Íslensk málnefnd sendi bréf 20. maí 2020 til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins og Önnu Sigríðar Þráinsdóttur, málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins, vegna kvörtunar frá Birni Baldurssyni þar sem f’undið var að notkun íslensku í fjölmiðlum. Kvörtunin varðar m.a. raddbeitingu, málhraða og virðingu málflytjenda í málflutningi sínum fyrir áheyrendum. Íslensk málnefnd minnir á að í lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 er tekið fram að Ríkisútvarpið skuli m.a. sinna menningarlegu hlutverki sínu með því að leggja rækt við íslenska tungu, sbr. 7. tölul. 3. gr. laganna. Jafnframt bendir Íslensk málnefnd á samning mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu þar sem segir að kappkostað skuli að málfar sé til fyrirmyndar og allt innlengt efni sem miðlað er sé á góðri íslensku.
Íslensk málnefnd sendi umsögn 13. maí 2020 um drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33./1944, með síðari breytingum (íslensk tunga). Íslensk málnefnd styður þessa stjórnarskrárbreytingu eindregið og telur að hún veiti frekari grundvöll fyrir lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011.
2019
Íslensk málnefnd sendi umsögn 21. nóvember 2011 um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands (279. mál, 150. löggjafarþing 2019-2020). Íslensk málnefnd tekur sérstaklega undir 30. gr. í III. kafla þar sem stendur: „Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“ Mikilvægt er að ekki gleymist að til eru lög um íslenska tungu og í raun væri betra ef greinin væri: „Íslenska er samkvæmt lögum þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“ Það hefur reynst Íslenskri málnefnd mjög vel að geta bent á lögin um íslenska tungu í baráttu fyrir verndun tungunnar.
Íslensk málnefnd sendi bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytis 9. september 2019 þar sem spurt var um endurskoðun norrænnar málstefnu sem undirrituð var 2006. Spurt var um hverjir sætu í svokölluðum „ad hoc“-hópi frá hverju landi, hversu langt málið væri komið og hvort ætlunin væri að leita til málnefndanna við vinnslu sameiginlegrar norrænnar málstefnu. Svarbréf barst 25. nóvember 2019 og þar kemur fram að í starfshópi um endurskoðun á norrænni málstefnu sitji Guðni Olgeirsson sem varamaður og Ólafur Grétar Kristjánsson sem varamaður og að Björk Óttarsdóttir muni einnig tengjast starfi hópsins. Í svarbréfinu kom einnig fram að sjónum væri beint að ungu fólki og tungumálum og að til stæði að leita til málnefndanna á Norðurlöndum í tenglsum við endurskoðunarvinnuna.
Íslensk málnefnd sendi bréf til málnefndar Stjórnarráðsins 8. september 2019 þar sem bent var á að á heimasíðum ráðuneyta væru birtar ræður ráðherra á ensku án íslenskrar þýðingar. Í bréfinu var hvatt til þess að farið væri eftir samþykktri málstefnu í ráðuneytum en þar segir í 4. lið 2. gr.: „Allar helstu ræður íslenskra ráðherra, sendiherra og annarra fulltrúa íslenskra stjórnvalda sem fluttar hafa verið á erlendu máli á innlendum eða erlendum vettvangi og birtar á vef Stjórnarráðsins skulu gerðar aðgengilegar á íslensku.“ Í svarbréfi frá málnefnd Stjórnarráðsins, dags. 31. október 2019, kemur fram að öllum ráðuneytum verði send bréf þar sem bent verði á skyldur stjórnvalda að þessu leyti og menn hvattir til að fylgja í störfum sínum ákvæðum laga sem varða íslenska tungu sem og íslenskri málstefnu og málstefnu Stjórnarráðsins.
Íslensk málnefnd sendi 5. mars 2019 umsögn vegna draga að frumvarpi til laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Íslensk málnefnd leggur til að sett verði inn í frumvarpið skýr ákvæði þess efnis að einstaklingur með erlent kennarapróf verði að hafa hæfni í íslensku sem hið minnsta jafngildir hæfniþrepi C1 samkvæmt samevrópska matsrammanum fyrir tungumál til að fá leyfi til að nota starfsheitið kennari og taka að sér kennslu í íslenskukm leik-, grunn- og framhaldsskólum.
Íslensk málnefnd sendi umsögn 11. janúar 2019 við tillögu til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi (443. mál, 149. löggjafarþing 2018-2019). Íslensk málnefnd fagnar tillögunni sem er að mati nefndarinnar þörf viðbót við lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál, nr. 61/2011, og er vísir að miklu umbótastarfi í þágu íslenskunnar.
2018
Íslensk málnefnd sendi 23. október 2018 umsögn til nefndasviðs Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2996, með síðari breytingum, þingskjal 139 – 139. mál; 150. löggjafarþing. Íslensk málnefnd telur varhugavert að slaka á því að ársreikningar séu birtir á íslensku.
Íslensk málnefnd sendi bréf til Ríkislögreglustjóra 26. júní en nefndinni hafði borist kvörtun vegna útlits á nýjum lögreglubifreiðum. Kvörtun sneri að því merkingar framan og aftan á lögreglubifreiðum væru á ensku. Í bréfi Málnefndarinnar var bent á lög um íslenska tungu frá 2011 þar sem m.a. kemur fram að íslenska er opinbert mál á Íslandi og að stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Svarbréf frá Ríkislögreglustjóra barst 27. júlí. Þar kom fram að ekki væri nýlunda að merkja lögreglubifreiðar bæði með „Police“ og „Lögreglan“ og að lögreglubifreiðar með „eldra útliti“ hafi verið merktar á hliðum með „Police“ og „Lögreglan“.
Íslensk málnefnd sendi bréf 26. júní til barna- og unglingasviðs Knattspyrnufélagsins Vals þar sem henni hafði borist kvörtun vegna bréfs sem sent var til foreldra drengja vegna fyrirhugaðra gistinótta í maí en bréfið var eingöngu ritað á ensku. Íslensk málnefnd benti á að í gildi væru lög um íslenska tungu þar sem fram kemur að íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Svarbréf barst 2. júlí frá formanni barna- og unglingasviðs Vals þar sem fram kemur að átak hafi verið gert í félaginu að senda líka upplýsingar á ensku þar sem fjöldi forráðamanna skilji ekki íslensku. Venjan væri að senda íslensk og ensk bréf og tilkynningar en í þessu tilviki láðist það og einungis var send tilkynning á ensku.
Íslensk málnefnd sendi ritstjóra Fréttablaðsins bréf 12. apríl þar sem vakin var athygli á að heilsíðuauglýsing hefði birst í Fréttablaðinu 22. mars frá fyrirtækinu Bjórböðin ehf. sem var eingöngu á ensku. Einnig var vakin athygli á auglýsingu frá versluninni hjá Hrafnhildi sem birt var 12. apríl með yfirskriftinni „Mid Season Sale“. Í bréfinu er bent á ákvæði í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 í II. kafla, 6. gr. þar sem stendur: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Í bréfinu fer Íslensk málnefnd þess á leit við Fréttablaðið að það setji strangari reglur um texta auglýsinga sem samræmast lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 og íslenskri málstefnu (Íslenska til alls) sem samþykkt var á Alþingi 12. mars 2009.
Íslensk málnefnd sendi 1. mars 2018 allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, 148. löggjafarþing 2017-2018, þingskjal 150 – 83. mál. Í umsögninni kemur fram að Íslensk málnefnd geti ekki veitt umsögn um einstakar greinar frumvarpsins þar sem á því eru svo veigamiklir gallar að ekki sé annað hægt en mælast til þess að Alþingi hafni því í heild sinni. Íslensk málnefnd leggur til að stjórnvöld beiti sé fyrir endurskoðun mannanafnalaga og þar verði haft víðtækt samráð við sérfræðinga og það gert í samvinnu við yfiröld menningarmála á Íslandi.
2017
Íslensk málnefnd sendi bréf til forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra 13. desember 2017. Í bréfinu var enn á ný vakin athygli stjórnvalda á upplýsingaskiltum á Keflavíkurflugvelli þar sem ensku hefur verið gert hærra undir höfði en íslensku síðan í upphafi árs 2016. Íslensk málnefnd fer fram á það við íslensk stjórnvöld að þau geri Isavia að breyta upplýsingaskiltunum þannig að íslenska sé í öndvegi en ekki á eftir ensku eða með smærra letri. Íslensk málnefnd telur afar mikilvægt að þessu sé breytt og að stjórnvöld taki af öll tvímæli um að þau ætli að framfylgja lögum um íslenska tungu nr. 61/2011 þar sem segir í 1. grein: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Íslensk málnefnd telur að þessi breyting væri mikilvægur táknrænn gjörningur og yfirlýsing um að staðið sé vörð um íslensku.
Íslensk málnefnd sendi bréf 16. október til Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, vegna kvörtunar sem Málnefndin hafði fengið frá doktorsnema við Háskólann um að Miðstöð framhaldsnáms hafi auglýst dagskrá fyrir kynningardag nýrra doktorsnema og hafi allar auglýsingar verið á ensku. Svarbréf frá rektor Háskóla Íslands barst 20. október þar sem fram kom að brugðist hefði verið við kvörtuninni og að auglýsingin hefði einnig verið birt á íslensku. Í bréfi rektors kom fram að Háskóli Íslands leitast við að gæta þess vandlega að kynningar á viðburðum á hans vegum séu á íslensku en eigi þeir jafnframt erindi við erlenda starfsmenn og stúdenta eru kynningarnar vanalega einnig hafðar á ensku.
Svarbréf frá innanríkisráðuneyti, undirritað af Sigurbergi Björnssyni og Gunnari Erni Indriðasyni fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, barst Íslenskri málnefnd 18. október 2017. Afrit var sent Birni Óla Haukssyni, forstjória Isavia ohf. Bréfið var svar við bréfi Íslenskrar málnefndar (frá 17. júní 2016) þar sem vakin var athygli ráðuneytisins á framsetningu íslenskrar tungu á skiltum á flugvellinum. Ráðuneytið tilgreinir að engar greiðslur renni til Isavia ohf. á grundvelli þjónustusamnings. Ákvæði 8. gr. nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls eigi því að mati ráðuneytisins ekki við um starfsemi Isavia. Það tekur þó undir sjónarmið málnefndarinnar um framsetningu á skiltum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Jafnframt telji það að það hafi ekki truflandi áhrif á þá farþegar sem ekki skilja íslensku þó að íslenska komi fram á undan öðrum tungumálum enda tíðkist slíkt í nágrannalöndum Íslands án vandkvæða.
Íslensk málnefnd ritaði bréf til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis 16. október þar sem vakin var athygli á notkun ensku á skiltum á Keflavíkurflugvelli og bent á íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 12. mars 2009 og lög um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls nr. 61/2011 en þar stendur í 1. grein: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ og í 8. grein stendur: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“
Íslensk málnefnd sendi Körfuknattleikssambandi Íslands (KKÍ) bréf 4. september þar sem nefndin hrósar KKÍ og leikmönnum körfuboltalandsliðsins fyrir það að treyjur landsliðsins séu merktar með eiginnöfnum landsliðsmanna. Íslensk málnefnd bendir á lög um stöðu íslenskrar tungu nr. 61/2011 þar sem segir að íslenska sé opinbert mál á Íslandi. Í 12. grein laganna segir enn fremur: Íslenska er opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi. Öllum er ljóst að það stríðir gegn aldagömlum nafnahefðum íslensku að kalla fólk kenninöfnum sínum. Íslenskri málnefnd er kunnur rökstuðningur leikmanna fyrir því að vilja merkja sig með kenninöfnum en hlutverk nefndarinnar er að halda fram sjónarmiðum sem stuðla að vernd og viðgangi íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd vill með þessu bréfi hrósa stjórn KKÍ og leikmönnum landsliðsins fyrir að treyjur þeirra skyldu merktar með eiginnöfnum.
Formaður sendi bréf til Neytendastofu 28. ágúst í tilefni af auglýsingum á ensku sem ætlaðar eru íslenskum almenningi. Bent var á ákvæði í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 í II. kafla 6. grein þar sem stendur: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Í bréfinu var jafnframt bent á lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 þar sem segir að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Íslensk málnefnd skorar á Neytendastofu að sjá til þess að farið sé að lögum um íslenska tungu og sýna í verki trúnað við íslenska málstefnu sem samþykkt var á Alþingi 12. mars 2009 en aðalmarkmið hennar er „að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Afrit af bréfinu var sent til borgarstjórans í Reykjavík, Dags B. Eggertssonar, forseta borgarstjórnar, Lífar Magneudóttur og mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Íslensk málnefnd sendi bréf 24. maí til gamalgróins íslensks fyrirtækis sem nýlega skipti um nafn og tók upp enska heitið Air Iceland Connect í stað íslenska heitisins Flugfélag Íslands. Í bréfinu var bent á lög nr. 61/2011 um Stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls en þar segir í 1. grein: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Og í 2. grein: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“ Íslensk málnefnd bendir á að með nafnbreytingunni endurspeglist afstaða til íslenskrar tungu sem grefur jafn og þétt undan henni og torveldar baráttuna fyrir vernd hennar og viðgangi. Slík afstaða getur vart talist íslenskum fyrirtækjum til sóma. Í bréfinu fer Íslensk málnefnd þess á leit við stjórn Air Iceland Connect að hún komi efni bréfsins á dagskrá innan sinna vébanda og heitir á forystumenn í íslensku atvinnulífi og stjórnendur íslenskra fyrirtækja, stórra sem smárra, að beita áhrifamætti sínum og ganga heils hugar í lið með þeim sem berjast fyrir lífi íslenskrar tungu. Afrit af bréfinu var sent til Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka iðnaðarins og Samtaka ferðaþjónustunnar.
Íslenskri málnefnd barst ábending hefur borist frá Ástu Kristínu Benediktsdóttur um að farþegum flugvéla Wow air séu einungis kynntar öryggisleiðbeiningar á ensku en þó gætu farþegar spurt flugliða um skýringar ef þeir óskuðu þess sérstaklega. Þetta er í andstöðu við lög um stöðu íslenskrar tungu. Formaður Íslenskrar málnefndar skrifaði flugfélaginu 6. apríl og sendi afrit til innanríkisráðuneytisins þar sem minnt er á opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu sem er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.
Marteinn Áki Ellertsson hdl. svaraði bréfi Íslenskrar málnefndar og benti m.a. á að WOW air starfi á alþjóðlegum markaði og 80-90% farþega væru af erlendu bergi brotnir og teldi í því ljósi eðlilegt, einkum m.t.t. öryggissjónarmiða, að ávörpin væru á ensku.
Íslenskri málnefnd barst athugasemd um að kaffistofa Listasafns Íslands hefði fengið heitið Mom’s Secret Café. Formaður hafði samband við Halldór Runólfsson hjá Listasafni Íslands sem benti á að rekstur kaffistofunnar hefði verið boðinn út. Á heimasíðu safnsins eru upplýsingar um kaffistofu en þar kemur hvergi fram að annar aðili sjái um reksturinn. Formaður ritaði bréf til Listasafns Íslands 11. janúar fyrir hönd Íslenskrar málnefndar þar sem bent var á að enskt nafn kaffistofunnar samræmdist á engan hátt stöðu safnsins sem eins af merkustu söfnum þjóðarinnar í flokki með Þjóðminjasafni Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Listasafn Íslands er þjóðlistasafn eins og stendur á heimasíðu safnsins, og fylgir því allnokkur ábyrgð. Nafnið samræmist á engan hátt lögum um stöðu íslenskrar tungu (nr. 61/20177) en í 1. gr. segir að íslenska sé þjóðtunga og opinbert mál á Íslandi og í 2. gr. að þjóðtungan sé sameiginlegt mál allra landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Jafnframt má benda á íslenska málstefnu. Listasafn Íslands ætti því hið fyrsta að velja nýtt nafn á kaffistofuna sem væri því til meiri sóma en það heiti sem nú er notað. Ekkert svar hefur borist frá Listasafni Íslands við bréfi Íslenskrar málnefndar.
Formaður sendi bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytis 11. janúar vegna viðbragða Menntamálastofnunar sem sá um framkvæmd á PISA-könnun á Íslandi. Könnunin hefur sætt gagnrýni vegna þess hve mikið var um villur í prófinu. Íslensk málnefnd gerir athugasemd við þau ummæli forstjóra Menntamálastofnunar að stafsetning og greinarmerkjasetning í spurningum könnunarinnar sé léttvægt atriði. Skrif stofnunarinnar á Facebook þurfa einnig að vera á vönduðu máli. Málnefndin áréttir að vandað verði til allra atriða sem snerta íslenskt mál, þ. á m. frágangsatriði og greinarmerkjasetningu. Ekki hefur borist svar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti við bréfi Íslenskrar málnefndar.
2016
Formaður sendi bréf 17. október 2016 til Ástu Magnúsdóttur ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis og afrit bréfs til Menntamálastofnunar um þau vandræði sem komu upp í sumum skólum þegar nemendur tóku í fyrsta sinn samræmd próf á tölvur í september. Vandinn kom fram í ritunarþætti prófsins í 7. bekk 22. september og var enn óleystur þegar 4. bekkingar tóku prófið viku síðar. Morgunblaðið fjallaði um málið (Broddstafirnir brugðust í íslenskuprófi, sjá hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/22/broddstafirnir_brugdust_i_islenskuprofi/). Er ekki annað sjá en forsvarsmönnum Menntamálastofnunar hafi þótt vandinn léttvægur, sbr. færslu á Facebook-síðu stofnunarinnar 3. september þar sem sleppt er sérhljóðabroddum. Formaður ÍM segir: „Í stað þess að harma rækilega mistökin og biðja alla nemendur, foreldra, kennara og skólastjóra afsökunar er Menntamálastofnun ,,með broddstafinn i kverkunum af anægju yfir þvi hvernig til tokst“ og skrifaður er texti þar sem allir broddstafir eru teknir út. Þetta á hugsanlega að vera fyndið en hvers konar skilaboð eru þetta til nemendanna? Mega allir skrifa að eigin geðþótta og vísa um það í snjalltækin?“
Formaður sendi bréf 17. júní til innanríkisráðherra, Ólafar Nordal. Afrit af bréfinu var sent til, Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia. Vakin er athygli á notkun ensku á Keflavíkurflugvelli þar sem hún er höfð á undan íslensku á upplýsingaskiltum. Íslensk málnefnd hafði áður skrifað bréf til Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, 29. apríl 2016 þar sem bent var á þetta. Hvorki hafa borist svör frá innanríkisráðuneyti né Isavia við bréfinu. Hér má lesa bréfið.
Formaður sendi bréf 29. apríl 2016 til Birkis Hólms Guðnasonar, framkvæmdastjóra Icelandair og gagnrýndi að í flugvélum Icelandair í alþjóðaflugi væru matseðlar og ýmsar aðrar upplýsingar í sætisvasa eingöngu á ensku. Í bréfinu segir: „Málnefndin er þeirra skoðunar að Icelandair taki hvorki tillit til íslenskrar málstefnu né laga um íslenska tungu um borð í vélum sínum og sýni íslenskum farþegum þar með litla virðingu. Þó má segja félaginu til hróss að áhöfn ávarpar enn farþega fyrst á íslensku í tilkynningum sínum.“ Bréfinu var ekki svarað.
Formaður sendi bréf til Björns Óla Haukssonar forstjóra Isavia 29. apríl 2016. Gagnrýndar voru nýjar merkingar á Keflavíkurflugvelli þar sem áhersla er lögð á enska tungu en íslenska er í öðru sæti eða alls ekki sjáanleg. Í bréfinu stendur m.a.: „Íslendingar líta á Keflavíkurflugvöll sem íslenskan flugvöll, eins og reyndar alla flugvelli landsins, og því á íslensk tunga að vera þar í hávegum höfð en ekki meðhöndluð sem annars flokks tungumáls. Málnefndin er þeirrar skoðunar að Isavia taki hvorki tillit til íslenskrar málstefnu né laga um íslenska tungu og beinir því til ráðamanna Isavia að þar verði breyting á.“ Bréfinu var ekki svarað.
Formaður ÍM sendi bréf 10. febrúar 2016 til nefndasviðs Alþingis með umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga (nr. 3/2006). Þingskjal 730 – 456. mál. Formaður gerði athugasemd við texta í 6. lið frumvarpsins: „[…] og skal texti ársreiknings, og samstæðureiknings ef félag gerir slíkan reikning, vera á íslensku eða ensku.“ Hann lagði til að „vera á íslensku eða ensku“ yrði breytt í „ávallt vera á íslensku en að auki á ensku eða öðru máli ef þörf krefur“. Guðrún mætti á fund efnahags- og viðskiptanefndar 8. mars til að kynna viðhorf ÍM til málsins.
Varaformaður sendi bréf 12. febrúar 2016 til Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogs. Í bréfinu stendur m.a.: „Athygli Íslenskrar málnefndar var vakin á því að kynning Kópavogsbæjar á tillögum í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um Kársnes væri að stofni til á ensku. Þetta þótti okkur afar óeðlilegt eins og fram kom í frétt í Ríkisútvarpinu 3. febrúar (http://www.ruv.is/frett/tillogur-um-framtid-karsness-birtar-a-ensku). Nú höfum við séð að Kópavogsbær hefur gert nokkra bragarbót á (http://www.kopavogur.is/stjornsyslan/frettir-og-utgefid-efni/frettir/framsaeknar-tillogur-um-karsnes) og er það til mikilla bóta.Við viljum þó ítreka að samkvæmt 8. grein laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga. Jafnframt að túlkun málnefndar á þessum lögum er sú að þátttaka í alþjóðlegum verkefnum sé ekki ein og sér næg ástæða til að bregða frá þessu.“
Fyrirtækið Isavia hefur sett upp ný upplýsingaskilti á flugvellinum í Keflavík. Á þeim er texti á ensku hafður á undan texta á íslensku og einnig feitletraður. Viðtal var við Guðrúnu Kvaran 13. febrúar á Vísi.is (sjá http://www.visir.is/enskan-i-forgrunni-a-nyjum-upplysingaskiltum-a-keflavikurflugvelli/article/2016160219484). Þar segir hún m.a.: „Á flugvelli þurfa upplýsingar auðvitað að vera á öðrum tungumálum og þá er eðlilegt að það sé málið sem flestir tali. En það tungumál á aldrei að vera hærra sett en íslenskan.“ Einnig var rætt við Guðrúnu um málið á Bylgjunni 22. febrúar.
Halldór Kr. Þorsteinsson leitaði álits Íslenskrar málnefndar á því í bréfi dags. 17. febrúar hvort hún teldi samræmast íslenskri hefð að prenta föðurnafn leikmanna á treyjur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM í Frakklandi í sumar. Formaður svaraði bréfinu 17. febrúar og skrifaði meðal annars: „Sú venja hefur verið ríkjandi frá því að land byggðist að kenna landsmenn til föður eða móður að viðbættu –son eða –dóttir og að nafn einstaklings sé eiginnafn hans. Kenninafn kemur því ekki í stað eiginnafns. […] Íslensk málnefnd telur að áletrun á búninga, sem nota á innanlands eða erlendis, eigi að fylgja íslenskum lögum og íslenskri málhefð og sýna eiginnafn leikmanns.“ Viðtal var við Guðrúnu um málið 19. febrúar á Bylgjunni.
Kópavogsbær birti vinningstillögur um skipulag á Kársnesi í byrjun febrúar. Upplýsingar um tillögurnar voru nær eingöngu á ensku. Viðtal var við Ármann Jakobsson í RÚV 3. febrúar þar sem hann sagði m.a. að slíkt gæti varla talist eðlilegt. Bagalegt sé að birta slíkar upplýsingar ekki á íslensku (sjá http://www.ruv.is/frett/tillogur-um-framtid-karsness-birtar-a-ensku).
Formaður sendi bréf 14. janúar til utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar. Í bréfinu stendur m.a.: „Íslensk málnefnd telur ótækt að stjórnvöld hafi tekið við skýrslu á ensku frá fyrirtækinu Reykjavík Economics sem unnin var m.a. fyrir samráðshóp sem stjórnvöld áttu aðild að. Samkvæmt 8. grein laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga. Störf Stjórnarráðsins skulu því fara fram á íslensku, þar með talin ritun skýrslna til notkunar innan stofnana þess.“ Viðtal var við Guðrúnu Kvaran á RÚV 19. janúar og birt frétt um málið (sjá http://www.ruv.is/frett/logbrot-ad-skyrsla-se-a-ensku).
2015
Formaður sendi bréf 4. nóvember 2015 til fyrirtækisins Íbúar ses og afrit til Reykjavíkurborgar þar sem hann gagnrýndi að könnun fyrirtækisins, sem unnin hefði verið fyrir Reykjavíkurborg (Betri Reykjavík), væri á ensku (sjá fg. stj. ÍM lið 4, a). Bent var á að þetta bryti í bág við 5. gr. laga um íslenska tungu og íslenska táknmálið 61/2011 þar sem stendur: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og sjá til þess að hún sé notuð.“ Í lok bréfs formanns segir: „Þess er vænst að farið verði að lögum í starfi fyrirtækisins.“
Varaformaður ÍM sendi bréf 31. mars 2015 til forseta Alþingis þar sem því var mótmælt að formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis skyldi senda skýrslu á ensku um peningamál til forsætisráðherra. Sjá um málið hér: http://www.ruv.is/frett/forseti-adhefst-ekki-vegna-skyrslu-a-ensku. Í bréfi varaformanns segir að það sé óhæfa að hafa slíka skýrslu á ensku og að það fari á svig við ákvæði 8. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Forseti Alþingis svaraði með bréfi dagsettu 8. apríl 2015. Í því þakkar forsetinn „málnefndinni fyrir þá varðstöðu um íslenska tungu sem lesa má af bréfi hennar.“ Hann segir að eins og komi fram í 1. mgr. 91. gr. þingskapa sé þingmálið íslenska, hins vegar sé skýrsla Frosta óviðkomandi Alþingi og unnin af sérfræðinganefnd á vegum forsætisráðuneytis. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að 2012 var samþykkt málstefna Stjórnarráðs Íslands (http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/7415) þar sem segir meðal annars: „Íslenska er mál Stjórnarráðs Íslands og öll vinnugögn skulu vera á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála.“