Ábendingar Íslenskrar málnefndar

Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011, 6. gr., stendur: „Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi.“ 

Á þessari síðu er birt yfirlit yfir slíkar ábendingar og viðbrögð við þeim.

 

2016

Formaður sendi bréf 17. október 2016 til Ástu Magnúsdóttur ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis og afrit bréfs til Menntamálastofnunar um þau vandræði sem komu upp í sumum skólum þegar nemendur tóku í fyrsta sinn samræmd próf á tölvur í september. Vandinn kom fram í ritunarþætti prófsins í 7. bekk 22. september og var enn óleystur þegar 4. bekkingar tóku prófið viku síðar. Morgunblaðið fjallaði um málið (Broddstafirnir brugðust í íslenskuprófi, sjá hér: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/22/broddstafirnir_brugdust_i_islenskuprofi/). Er ekki annað sjá en forsvarsmönnum Menntamálastofnunar hafi þótt vandinn léttvægur, sbr. færslu á Facebook-síðu stofnunarinnar 3. september þar sem sleppt er sérhljóðabroddum. Formaður ÍM segir: „Í stað þess að harma rækilega mistökin og biðja alla nemendur, foreldra, kennara og skólastjóra afsökunar er Menntamálastofnun ,,með broddstafinn i kverkunum af anægju yfir þvi hvernig til tokst" og skrifaður er texti þar sem allir broddstafir eru teknir út. Þetta á hugsanlega að vera fyndið en hvers konar skilaboð eru þetta til nemendanna? Mega allir skrifa að eigin geðþótta og vísa um það í snjalltækin?"

Formaður sendi bréf 17. júní til innanríkisráðherra, Ólafar Nordal. Afrit af bréfinu var sent til, Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia. Vakin er athygli á notkun ensku á Keflavíkurflugvelli þar sem hún er höfð á undan íslensku á upplýsingaskiltum. Íslensk málnefnd hafði áður skrifað bréf til Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, 29. apríl 2016 þar sem bent var á þetta. Hvorki hafa borist svör frá innanríkisráðuneyti né Isavia við bréfinu. Hér má lesa bréfið.

Formaður sendi bréf 29. apríl 2016 til Birkis Hólms Guðnasonar, framkvæmdastjóra Icelandair og gagnrýndi að í flugvélum Icelandair í alþjóðaflugi væru matseðlar og ýmsar aðrar upplýsingar í sætisvasa eingöngu á ensku. Í bréfinu segir: „Málnefndin er þeirra skoðunar að Icelandair taki hvorki tillit til íslenskrar málstefnu né laga um íslenska tungu um borð í vélum sínum og sýni íslenskum farþegum þar með litla virðingu. Þó má segja félaginu til hróss að áhöfn ávarpar enn farþega fyrst á íslensku í tilkynningum sínum." Bréfinu var ekki svarað.

Formaður sendi bréf til Björns Óla Haukssonar forstjóra Isavia 29. apríl 2016. Gagnrýndar voru nýjar merkingar á Keflavíkurflugvelli þar sem áhersla er lögð á enska tungu en íslenska er í öðru sæti eða alls ekki sjáanleg. Í bréfinu stendur m.a.: „Íslendingar líta á Keflavíkurflugvöll sem íslenskan flugvöll, eins og reyndar alla flugvelli landsins, og því á íslensk tunga að vera þar í hávegum höfð en ekki meðhöndluð sem annars flokks tungumáls. Málnefndin er þeirrar skoðunar að Isavia taki hvorki tillit til íslenskrar málstefnu né laga um íslenska tungu og beinir því til ráðamanna Isavia að þar verði breyting á." Bréfinu var ekki svarað.

Formaður ÍM sendi bréf 10. febrúar 2016 til nefndasviðs Alþingis með umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga (nr. 3/2006). Þingskjal 730 – 456. mál. Formaður gerði athugasemd við texta í 6. lið frumvarpsins: „[...] og skal texti ársreiknings, og samstæðureiknings ef félag gerir slíkan reikning, vera á íslensku eða ensku." Hann lagði til að „vera á íslensku eða ensku" yrði breytt í „ávallt vera á íslensku en að auki á ensku eða öðru máli ef þörf krefur". Guðrún mætti á fund efnahags- og viðskiptanefndar 8. mars til að kynna viðhorf ÍM til málsins.

Varaformaður sendi bréf 12. febrúar 2016 til Ármanns Kr. Ólafssonar, bæjarstjóra Kópavogs. Í bréfinu stendur m.a.: „Athygli Íslenskrar málnefndar var vakin á því að kynning Kópavogsbæjar á tillögum í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni um Kársnes væri að stofni til á ensku. Þetta þótti okkur afar óeðlilegt eins og fram kom í frétt í Ríkisútvarpinu 3. febrúar (http://www.ruv.is/frett/tillogur-um-framtid-karsness-birtar-a-ensku). Nú höfum við séð að Kópavogsbær hefur gert nokkra bragarbót á (http://www.kopavogur.is/stjornsyslan/frettir-og-utgefid-efni/frettir/framsaeknar-tillogur-um-karsnes) og er það til mikilla bóta.Við viljum þó ítreka að samkvæmt 8. grein laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga. Jafnframt að túlkun málnefndar á þessum lögum er sú að þátttaka í alþjóðlegum verkefnum sé ekki ein og sér næg ástæða til að bregða frá þessu."

Fyrirtækið Isavia hefur sett upp ný upplýsingaskilti á flugvellinum í Keflavík. Á þeim er texti á ensku hafður á undan texta á íslensku og einnig feitletraður. Viðtal var við Guðrúnu Kvaran 13. febrúar á Vísi.is (sjá http://www.visir.is/enskan-i-forgrunni-a-nyjum-upplysingaskiltum-a-keflavikurflugvelli/article/2016160219484). Þar segir hún m.a.: „Á flugvelli þurfa upplýsingar auðvitað að vera á öðrum tungumálum og þá er eðlilegt að það sé málið sem flestir tali. En það tungumál á aldrei að vera hærra sett en íslenskan." Einnig var rætt við Guðrúnu um málið á Bylgjunni 22. febrúar.

Halldór Kr. Þorsteinsson leitaði álits Íslenskrar málnefndar á því í bréfi dags. 17. febrúar hvort hún teldi samræmast íslenskri hefð að prenta föðurnafn leikmanna á treyjur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM í Frakklandi í sumar. Formaður svaraði bréfinu 17. febrúar og skrifaði meðal annars: „Sú venja hefur verið ríkjandi frá því að land byggðist að kenna landsmenn til föður eða móður að viðbættu -son eða -dóttir og að nafn einstaklings sé eiginnafn hans. Kenninafn kemur því ekki í stað eiginnafns. [...] Íslensk málnefnd telur að áletrun á búninga, sem nota á innanlands eða erlendis, eigi að fylgja íslenskum lögum og íslenskri málhefð og sýna eiginnafn leikmanns.“ Viðtal var við Guðrúnu um málið 19. febrúar á Bylgjunni.

Kópavogsbær birti vinningstillögur um skipulag á Kársnesi í byrjun febrúar. Upplýsingar um tillögurnar voru nær eingöngu á ensku. Viðtal var við Ármann Jakobsson í RÚV 3. febrúar þar sem hann sagði m.a. að slíkt gæti varla talist eðlilegt. Bagalegt sé að birta slíkar upplýsingar ekki á íslensku (sjá http://www.ruv.is/frett/tillogur-um-framtid-karsness-birtar-a-ensku).

Formaður sendi bréf 14. janúar til utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar. Í bréfinu stendur m.a.: „Íslensk málnefnd telur ótækt að stjórnvöld hafi tekið við skýrslu á ensku frá fyrirtækinu Reykjavík Economics sem unnin var m.a. fyrir samráðshóp sem stjórnvöld áttu aðild að. Samkvæmt 8. grein laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga. Störf Stjórnarráðsins skulu því fara fram á íslensku, þar með talin ritun skýrslna til notkunar innan stofnana þess." Viðtal var við Guðrúnu Kvaran á RÚV 19. janúar og birt frétt um málið (sjá http://www.ruv.is/frett/logbrot-ad-skyrsla-se-a-ensku).  

 

2015

Formaður sendi bréf 4. nóvember 2015 til fyrirtækisins Íbúar ses og afrit til Reykjavíkurborgar þar sem hann gagnrýndi að könnun fyrirtækisins, sem unnin hefði verið fyrir Reykjavíkurborg (Betri Reykjavík), væri á ensku (sjá fg. stj. ÍM lið 4, a). Bent var á að þetta bryti í bág við 5. gr. laga um íslenska tungu og íslenska táknmálið 61/2011 þar sem stendur: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og sjá til þess að hún sé notuð." Í lok bréfs formanns segir: „Þess er vænst að farið verði að lögum í starfi fyrirtækisins."

Varaformaður ÍM sendi bréf 31. mars 2015 til forseta Alþingis þar sem því var mótmælt að formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis skyldi senda skýrslu á ensku um peningamál til forsætis­ráðherra. Sjá um málið hér: http://www.ruv.is/frett/forseti-adhefst-ekki-vegna-skyrslu-a-ensku. Í bréfi vara­formanns segir að það sé óhæfa að hafa slíka skýrslu á ensku og að það fari á svig við ákvæði 8. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Forseti Alþingis svaraði með bréfi dagsettu 8. apríl 2015. Í því þakkar forsetinn „málnefndinni fyrir þá varðstöðu um íslenska tungu sem lesa má af bréfi hennar.“ Hann segir að eins og komi fram í 1. mgr. 91. gr. þingskapa sé þingmálið íslenska, hins vegar sé skýrsla Frosta óviðkomandi Alþingi og unnin af sérfræðinganefnd á vegum forsætis­ráðuneytis. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að 2012 var samþykkt málstefna Stjórnarráðs Íslands (http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/7415) þar sem segir meðal annars: „Íslenska er mál Stjórnarráðs Íslands og öll vinnugögn skulu vera á íslensku nema sérstök rök séu fyrir notkun annarra mála.